lördag 11 oktober 2008

Haukur Már Helgason á andlitsbók skrifar og ég skrifa þar á eftir... hér er rætt um svipaðar hugmyndir og ég skrfaði 5 oktober hér á bloggið...

Ég bæti hér við góðan pistil frá Eiríki stuttri samantekt á því sem bókin hennar Klein fjallar um þetta er brot úr grein sem ég birti á Kistunni fyrir viku

--- Þegar ekkert getur verið heilagt: skelfing sem aðferð ---

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands og Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sitja með Simma San í sjónvarpssal, og ræða ávarp forsætisráðherra „til þjóðarinnar“ og það sem gera ber. Þeir eru brúnaþungir eins og aðrir, og sérstaklega þungt yfir Grétari. En þeir tala vafningalaust. Grétar segir: „Það er fullt af aðilum erlendis sem hafa fulla trú á því að hægt sé að fjárfesta á Íslandi,“ og í kjölfarið berst umræðan að mikilvægi þess að greiða fyrir öllum þeim álversframkvæmdum og virkjunum sem eru í deiglunni:

Sigmar: Breytist hugsunarháttur fólksins í landinu?
Vilhjálmur: Ég ætla rétt að vona það.
Grétar: Það er neyðarástand í landinu og í slíkum kringumstæðum getur ekki neitt verið heilagt.[29]

Naomi Klein heitir fræðimaður og blaðamaður sem er einkum þekkt fyrir bók sína No Logo, sem fjallaði um yfirgang markaðssetningar og auglýsinga, og sársaukafulla misréttið sem er breitt yfir með glansáferð markaðanna. Hún skrifaði aðra bók, sýnu alvarlegri ef eitthvað er, sem kom út á síðasta ári og heitir The Shock Doctrine. Í þeirri bók rekur Klein sögu frjálshyggjunnar í ljósi þeirrar aðferðafræði sem Milton Friedman, einn helsti hugmyndafræðingur nýfrjálshyggju, lagði áherslu á í bókinni Capitalism and Freedom. Bókin kom fyrst út 1962 en var endurprentuð við Chicago háskólann 1982, og hefur síðan verið fylgt dyggilega af hugmyndafræðilegum sérsveitum hans, ef svo má segja. Friedman skrifaði: „aðeins krísa – reynd eða sýnd – framkallar raunverulegar breytingar. Þegar sú krísa á sér stað, fara þær aðgerðir sem gripið er til eftr því hvaða hugmyndir eru til staðar. Ég lít á það sem meginhlutverk okkar: að þróa valkosti við þau stjórnmál sem þegar eru til, halda þeim á lífi og innan seilingar þar til það sem er pólitískt óhugsandi verður óhjákvæmilegt.“ Klein hefur þetta eftir honum og heldur áfram: „Sumt fólk birgir sig upp af dósamat og vatni til að búa sig undir stóráföll; fylgismenn Friedman birgja sig upp af hugmyndum um frjálsan markað. Þegar krísan skellur á var prófessorinn í Chicago sannfærður um að það skipti meginmáli að bregðast hratt við, koma á snöggum og óafturkræfum breytingum, áður en samfélagið sem komið hafði verið í uppnám rynni aftur undir „harðræði óbreytts ástands.““

Klein rekur í bókinni hvernig kerfisbinding samfélags við alþjóðlega fjármagnsmarkaði síðasta aldarfjórðung, það sem heitir einkavæðing eða markaðsvæðing, átti sér alltaf stað í kjölfar stóráfalla, eins og Friedman mælti með, og hvernig ferlinu var iðulega fylgt eftir með líkamlegu ofbeldi, pyndingum og jafnvel drápum: Valdarán Pinochets í Chile, með velþóknun Thatchers og Reagans, er slíkt dæmi, þrjátíu árum síðar innrásin í Írak.[30] Mótmælendur á Torgi hins himneska friðar í Kína, sem var valtað yfir á skriðdrekum, voru að mótmæla fjármagnsvæðingu, ekki kommúnisma – en eftir áfallið hefur verið lítið um andstöðu við (ríkisstýrða) markaðsvæðingu í Kína. Eftir flóðbylgjuna í Sri Lanka árið 2004, flóðin í New Orleans 2005, gripu Chicago strákar tækifærið til einkavæðingar á grunnskólum, heilbrigðiskerfi, öllu sem þurfti að byggja upp aftur. Í eftirmála stóráfallsins fékk enginn rönd við reist, eins og Friedman hafði spáð fyrir. Hrottafengin ofbeldissaga frjálshyggjunnar er dregin svo skýrum dráttum, að sú spurning hefur vaknað hvaða stóráfall það var sem gekk yfir Ísland og gerði mönnum kleift að ganga svona langt hérna.

En kannski var sú spurning ótímabær hingað til. Heilbrigðiskerfið er enn rekið af hinu opinbera – skólakerfið er það líka að mestu leyti – þó að Ísland hafi hugmyndafræðilega færst jafn langt til hægri og hægt er á síðasta aldarfjórðungi, hefur það í reynd að miklu leyti haldið áfram að starfa sem norrænt velferðarríki.

„Svona virkar skelfingaraðferðin: upprunalega áfallið – valdaránið, hryðjuverkaárásin, markaðshrunið, stríðið, flóðbylgjan, fellibylurinn – kemur öllu samfélaginu í ástand sameiginlegrar skelfingar. Sprengjuregnið, hyrðjuverkin, dynjandi bylurinn mýkja upp heil samfélög eins og dúndrandi tónlist og högg í pyntingaklefum mýkja upp fanga. Eins og fangi veitir nöfn félaga sinna og gengur af trú sinni við pyntingar, sleppa skelfd samfélög oft hendinni af hlutum sem þau hefðu annars varið með ráði og dáð.“ (Klein bls. 17) „Áföllin sem þjónuðu þessu „mýkingar“-hlutverki hafa ekki alltaf verið blátt áfram ofbeldisfull. Í Suður-Ameríku og Afríkuríkjum á níunda áratugnum varð skuldakreppa til að neyða löndin til „einkavæðingar eða dauða“, eins og einn fyrrverandi embættismaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins orðaði það. Þegar land flosnar upp vegna óðaverðbólgu og er of skuldum vafið til að segja nei við þeim kröfum sem fylgja erlendum lánum, tóku stjórnvöld á móti „skelfingarmeðferð“ gegn því loforði að hún myndi bjarga þeim frá dýpri hörmungum […] Mörg þessara landa voru lýðræðisríki en markaðsvæðingunni var ekki komið á lýðræðislega. Þvert á móti: eins og Friedman skildi fól hið þunga kreppuandrúmsloft í sér nauðsynlegan formála að yfirtöku þess vilja sem kjósendur höfðu látið í ljós og leggja landið í hendur hagþenkjandi „tæknikrötum“.“ (Bls. 10)

Ríkið hefur nú veitt sjálfu sér heimild til að taka á sig, fyrir okkar hönd, nánast hvaða fjárhagslegu skuldbindingar sem er, og hlutast til um fé fjármálafyrirtækja, líka nánast hvernig sem er. Enn er ekki ljóst með hvaða hætti lífeyrissjóðir landsmanna koma að björgunaraðgerðunum, sem meira er: enn hefur ekki verið kveðið upp úr með það hverju á að bjarga. Þegar við spyrjum með Pétri Tyrfingssyni hvaða efnahagsvanda á nú að leysa – hvaða hagsmunir eru efstir á blaði – þá skulum við gæta vel að því – mjög vel – að ríkisafskipti af fjármálum geta stefnt samfélagi í það minnsta í tvær eðlisólíkar áttir. Vinstrimenn þurfa að gæta þess sérstaklega að láta ekki glepjast af þeim gegndarlausa útúrsnúningi hægrimanna að félagshyggja felist fyrst og fremst í því að vera hrifinn af ríkisafskiptum. Félagshyggja felst í algjörri og þrotlausri andstöðu við kúgun fólks – hver sem kúgar og hvaða tæki sem hann beitir. Frjálshyggja er vitlaus hugmynd því hún sér hvorki sögu né vald – hún lifir í afneitun á því að hún er, að eðli, óvarin gegn yfirtöku þeirra afla sem þrífast innan hennar, þess valds sem hrannast upp í slíka risahauga, að það ber á endanum ríkin sjálf ofurliði, og sú hætta er til staðar að fólk, lifandi manneskjur, verði undir. Á meðan hún varir, eða öllu heldur á meðan hún er hreyfing frá ríkisvaldi að markaði margra leikenda, hefur hún kosti og er sannarlega skömminni skárri en það sem getur leitt af henni: samruni ríkis og fjármagns í korporatískt fyrirkomulag. Slíkt kerfi hefur líka verið nefnt pilsfaldakapítalismi – en orðið sjálft er hlaðið of jákvæðri skírskotun í huga þeirra gagnkynhneigðu karla sem fara með öll völd (svona eins og orðið myntkarfa). Korporatismi var upphaflega notað af fasistum yfir þeirra eigin hagstjórnarhugmyndir: að ríki og stórfyrirtæki, jafnvel í samstarfi við verkalýðshreyfingar, skipi hverjum manni á sinn stað, undirmenn undir, yfirmenn yfir, sjái til þess að engum falli verk úr hendi, framleiðsla sé næg. Slíku fyrirkomulagi er einatt komið á með aðgerðum sem látið er í veðri vaka – jafnvel í góðri trú[32] – að séu tímabundnar, til að komast yfir alvarlega erfiðleika sem steðji að samfélagi. Slíku ríkisvaldi lætur sér ekki fyrst og fremst annt um borgaraleg réttindi og frelsi. Náttúruvernd?

Í máli nær allra þeirra sem rætt var við í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins eftir ávarp Forsætisráðherra mátti greina þessa afstöðu, að nú yrði að gera hvað sem byðist, taka öllum tilboðum, og okkur gæti ekkert verið heilagt. Rætt hefur verið um að selja í snarhasti flugvallarsvæðið í Reykjavík, iðnaðarráðherra minntist á skattaívilnanir sem gætu laðað fjárfesta til landsins[33], svo ekki sé minnst á það sjálfsagða: að virkja allt sem virkja má, og moka meiri þorsk (þó fulltrúar Frjálslynda flokksins séu enn sem komið er einir um að leggja áherslu á það). Skyndilegt yfirlýst neyðarástand, sem enn er aðeins til staðar í sýndarveruleika fjármálamarkaða, setur Ísland allt umsvifalaust á útsölu.

Um leið má gera ráð fyrir að allir fari að kalla sig sósíalista, svona í og með. Pétur Blöndal benti á það í Silfri Egils að hann hefði átt drjúgan þátt í að koma á núríkjandi lífeyrissjóðakerfi, og sagðist hlynntur velferðarkerfinu, næstum móðgaður yfir því að vera kallaður talsmaður einstaklingshyggju. Og Hannes Hólmstein Gissurarson taldi það til í Kastljósi RÚV föstudaginn 3. október að „Davíð Oddsson, hann varaði mjög við ofurlaununum og hann varaði mjög við gengislánunum sem heimilin voru að taka.“ Ísland á útsölu en orðin eru ókeypis. Það verður mikilvægt að hlusta ekki bara á orðin heldur í gegnum þau, svo að segja. Því þrátt fyrir að komist hafi upp um að síðustu mánuðir og jafnvel ár hafa verið barmafull af lygi um innviði samfélags okkar og hvernig hugsað var um verðmæti þess og tíma fólks, svo að segja má að lygin drjúpi hér af hverju strái, þá hefur enn enginn játað á sig neina sök, enginn gengist við ábyrgð, enginn stigið neitt skref í átt að því að gefa orðum þessa samfélags aftur merkingu. Þau eru þannig enn í lausu lofti. Það er enn verið að tala við einhvern órafjarlægan annan en okkur – börnin okkar kannski eða barnabörnin. Þetta gerir verkefni okkar auðvitað enn vandasamara, en ef mér skjátlast ekki gerir það líka ráðamönnum erfitt fyrir.

Sigmar: Breytist hugsunarháttur fólksins í landinu?
Vilhjálmur: Ég ætla rétt að vona það.
Grétar: Það er neyðarástand í landinu og í slíkum kringumstæðum getur ekki neitt verið heilagt.

Jú, víst.

Tryggvi Gunnar Hansen wrote
þetta fjármagnsleysi var búið til í bandaríkjonum til að skapa þessa þvíngandi aðstæður og planið er að ná algjörum yfirráðum á íslandi... planið er að fylla landið af álverum og sjúgja allt sem sogið verður undir þetta lið sem stýrir central bánkanum í USA... rotchild rockefellow eða hvað þeir nú heita... rústa náttúru landsins.. þetta er "Saruman" yfir óttaframleiðandinn (terroristi) og valdsjúklingurinn. Planið um algjör yfirráð um alla jörð er unnið með þessum aðferðum "frjálshyggjunnar"... fyrst með peningalánum sem íslendingar hafa þegar baðað sig í ... alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er verkfæri í höndum þessarar valdakliku og fjölmiðlar og stríðsvélarnar reka lestins í þessu verkfærasafni... burt með stjórnina og nú þarf að frysta öll lán og kjósa þá sem vinna fyrir þjóðina sem heild og fólkið í landinu. Hin nýi banki skuldar engum neitt og það þarf bara að vinna þetta rólega. Ferðamannaþjónusta og fiskveiðar og haldbær menning er framtíð án eftirsjár. Álverin eru þegar of mörg í landinu.
Þau eru blettir í náttúru landsins og sögu þjóðarinnar og verða að vikja að mínu mati er frá líður.

Inga kommentarer: